Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Vivaldi gefur í dag út sína stærstu uppfærslu á Vivaldi vafranum frá upphafi. Í tilkynningu frá félaginu segir að lögð sé áhersla á að bjóða notendum upp á annan og betri kost en tæknirisana sem einoka markaðinn, s.s. Vivaldi þýðingar vefsíða, beta-útgáfu af innbyggðu tölvupóstkerfi, dagatali og lesara fyrir strauma.

„Hýsing er að öllu leyti hjá Vivaldi og þar af leiðandi getum við tryggt friðhelgi gagna. Þar með eru þýðingar notanda ekki innan seilingar stórfyrirtækja eins og Google og Microsoft," segir í tilkynningunni.

Þá verður boðið upp á beta útgáfu af Vivaldi tölvupóstkerfi með lesara fyrir strauma og Vivaldi dagatal.

„Það er ekki orðum aukið að með Vivaldi 4.0 gerir Vivaldi notendum auðveldara fyrir að losa sig undan einokunartilburðum stóru tæknirisanna, sem eru vægast sagt óhuggulegir," segir einnig í tilkynningunni.

„Ört stækkandi hópur fólks um víða veröld leitar að áreiðanlegum, nothæfum valkostum við tólin sem tæknirisarnir bjóða upp á. Vivaldi kemur á móts við þessar þarfir og rúmlega það með ört fjölgandi innbyggðum eiginleikum sem gerir notendum kleift að sérsníða vafrann að sínum þörfum og hafa fulla stjórn á sínum eigin gögnum og vinnuflæði á netinu. Í stuttu máli sagt þá er sú tíð liðin að notendur treysti tæknirisunum fyrir gögnunum sínum,“ er haft eftir Jóni von Tetzchner, forstjóra og aðaleiganda Vivaldi.