Ítalski og alþjóðlegi bankarisinn Unicredit hefur fjárfest fyrir 3.1 milljónir evra í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga og hafið innleiðingu á lausnum fyrirtækisins. Unicredit, einn stærsti banki heims, hefur fjárfest í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga fyrir 3.1 milljónir evra, eða sem nemur 382 milljónum króna.

Til viðbótar við fjárfestinguna hefur bankinn hafið innleiðingu á snjallsíma- og netbankalausnum Meniga. Samstarfið var tilkynnt á Money 20/20, stærstu fjártækni ráðstefnu Evrópu, í Amsterdam í dag. Samningurinn er stærsti samningur sinnar tegundar sem gerður hefur verið í Evrópu segir í fréttatilkynningu.

Innleiðingin mun gera bankanum kleift að bjóða viðskiptavinum persónulegri notendaupplifun auk þess sem snjallsíma- og netbankalausn bankans verður endurbætt. Viðskiptavinir munu geta einfaldað og haldið betur um heimilisfjármálin sín með því að fá persónulega yfirsýn og tilkynningar frá Meniga kerfinu.

Með starfsemi í 17 löndum

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga og einn stofnandi fyrirtækisins fjárfestingu UniCredit gera fyrirtækinu kleift að einblína á áframhaldandi vöxt og þróun fjármálalausna.

„UniCredit er einn stærsti banki Evrópu með starfsemi í 17 löndum,“ segir Georg. „Það er mikill heiður fyrir Meniga að banki af þessari stærðargráðu hafi ákveðið að fjárfesta í Meniga og velja okkur sem lykilsamstarfsaðila bankans í nýsköpun og fjártækni.“

Gianni Franco Papa, framkvæmdastjóri UniCredit segir: „Við hjá UniCredit höfum lagt mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum upp á persónulega upplifun og samstarfið við Meniga er mjög mikilvægur liður í þessari vegferð.“

Notaður hjá yfir 70 fjármálastofnunum

Fyrr á árinu fjárfesti sænski viðskiptabankinn Swedbank í Meniga ásamt því að innleiða lausnir fyrirtækisins. Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfsmenn í dag um 100. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 70 fjármálastofnunum og er hann aðgengilegur yfir 50 milljón manns í 23 löndum.

Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims, þeirra á meðal Swedbank, Santander, Commerz-bank, ING Direct og Intesa Sanpaolo. Landsmönnum stendur til boða að nýta sér lausnir Meniga gjaldfrjálst á vefnum meniga.is eða í Meniga appinu fyrir iPhone og Android síma.