Fríverslunarsamningur Kyrrahafsþjóða (e. Trans-Pacific Partnership, TPP) var samþykktur í dag, að því er kemur fram á Reuters. Þar segir að leiðtogar samningsþjóðanna, sem eru tólf talsins, muni tilkynna um niðurstöðuna í dag.

Samkvæmt samningnum verða þúsundir tolla felldir niður auk þess sem öðrum aðgangshindrunum að mörkuðum verður rutt úr vegi. Samningaviðræður hafa staðið yfir í um átta ár.

Samningurinn mun þó ekki taka gildi fyrr en hann hefur verið samþykktur af bandaríska þinginu. Barack Obama bandaríkjaforseti hefur lagt áherslu á að samningurinn muni ná fram að ganga og líklegt er að hann verði pólitískt þrætuepli þar í landi næstu mánuðina.

Samningurinn hefur þótt umdeildur vegna þess hve mikil leynd hefur ríkt yfir viðræðum, en gagnrýnendur telja að slíkt ógagnsæi sé til marks um að ýmsir hagsmunahópar hafi komið óeðlilega nálægt gerð samningsins.

Nánar er fjallað um málið á vef Reuters.