*

þriðjudagur, 24. nóvember 2020
Erlent 16. nóvember 2020 08:45

Heimsins stærsti fríverslunarsamningur

Nýundirritaður fríverslunarsamningur 15 Asíu- og Eyjaálfuríkja nær yfir tæpan þriðjung heimsframleiðslu og mannkyns.

Ritstjórn
Forsætis- og viðskiptaráðherrar Víetnam, Xuan Phuc og Tuan Anh, fagna fjarundirritunarathöfn samningsins.
epa

Aðilar nýs viðskiptasamnings milli 15 landa í Asíu og Eyjaálfu – sem undirritaður var í Víetnam í gær – standa sín á milli undir nær þriðjungi heimsframleiðslunnar. Meðal þeirra eru Kína, Japan, Suður-Kórea, Ástralía og Nýja Sjáland.

Auk þess að fella niður allskyns tolla felur samningurinn í sér ákvæði um hugverk, fjarskipti, fjármálaþjónustu, netverslun og sérhæfða þjónustu.

Fríverslunarsvæðið mun auk 29% heimsframleiðslunnar ná yfir rétt tæpan þriðjung mannkyns. Til samanburðar nemur samanlögð landsframleiðsla Kanada, Bandaríkjanna og Mexíkó – sem gert hafa fríverslunarsamning sín á milli – 27% heimsframleiðslunnar með 6,5% mannfjöldans, og Evrópusambandið 22% framleiðslunnar með 6,8% mannfjöldans.

Svæðisbundna heildstæða efnahagslega samstarfið (e. Regional Comprehensive Economic Partnership), eins og það er kallað, þykir til marks um vaxandi áhrif Kína á svæðinu. Indland tók einnig þátt í viðræðunum, en sagði skilið við þær í fyrra. Því stendur þó til boða að gerast aðili að samningnum seinna meir.

Sjá einnig: Verður stærsta fríverslunarsvæði heims

Viðræðurnar hafa staðið yfir frá 2012, en samhliða þeim stóðu yfir viðræður um hið svokallaða Kyrrahafssamstarf (e. Trans-Pacific Partnership), sem átti meðal annars að innihalda Bandaríkin. Donald Trump fráfarandi forseti dró hinsvegar landið úr þeim viðræðum, og ekkert varð úr samningnum.

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, lýsti samningnum sem vonarglætu í því andrúmslofti sem einkenni aðstæður í heiminum í dag. Vísaði hann þar væntanlega til heimsfaraldurs kórónuveirunnar, og vaxandi einangrunarhyggju og viðskiptahindrana, en Kína hefur átt í harðvítugum viðskiptadeilum við Bandaríkin síðustu ár. Hann sagði samninginn sigur marghliða samningagerðar og frjálsra viðskipta.

Umfjöllun BBC.

Umfjöllun Financial Times.

Umfjöllun Wall Street Journal.