Frakkland hefur tryggt sér pöntun á Rafale herþotunum sínum frá Sameinuðu furstadæmunum. Samningurinn, sem er talinn hljóða upp á meira en 17 milljarða evra, felur í sér sölu á 80 Rafale þotum og tólf Caracal þyrlum sem framleiddar eru af Dassault Aviation og Airbus. Hlutabréf Dassault Aviations hækkuðu um allt að 9% við fréttirnar.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði að um væri að ræða „stærsta hernaðarsamning í sögunni okkar“. Samband Frakklands og Sameinuðu furstadæmanna hefur styrkst á undanförnum árum en Macron og Sheikh Mohammed bin Zayed al-Nahyan, krónprins Abú Dabí, eru samhljóma þegar kemur að mörgum málum tengdum Miðausturlöndum, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Macron er staddur í Dubai vegna samningsins en mun á næstu dögum funda með stjórnvöldum í Sádi Arabíu og Katar.

Samingurinn við Sameinuðu furstadæmin kemur í kjölfarið á pöntunum á Rafale þotum frá Króatíu, Grikklandi og Egyptalandi fyrr í ár.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Sheikh Mohammed bin Zayed al-Nahyan, krónprins Abú Dabí.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Sheikh Mohammed bin Zayed al-Nahyan, krónprins Abú Dabí.
© epa (epa)