Gildi lífeyrissjóður, stærsti hluthafi Icelandair hefur selt um 1,15% hlut í Icelandair frá áramótum. Eignarhlutur Gildis hafði lækkað úr 6,35% um áramótin í 5,2% þann 10. febrúar samkvæmt uppfærðum hluthafalista Icelandair . Félagið seldi því um 324,7 milljónir hluta á fyrstu dögum ársins.

Miðað við þróun hlutabréfaverðs Icelandair frá áramótum og fram til 10. febrúar má áætla að Gildi hafi selt bréfin í Icelandair á um 500 til 600 milljónir króna.

Miðað við núverandi gengi bréfa í Icelandair er hlutur Gildis í Icelandair metinn á ríflega 2,3 milljarða króna, en lífeyrissjóðurinn átti 1.479 milljónir hluta í flugfélaginu þann 10. febrúar en átti 1.803,76 milljónir hluta í upphafi ársins.

Gildi var fyrir hlutafjárútboð þriðji stærsti hluthafi Icelandair með 7,25% hlut . Eftir útboðið varð Gildi hins vegar stærsti hluthafinn með 6,61% hlut. Félagið átti þá 1.878 milljónir hluta en seldi 75 milljónir þeirra fyrir áramót eða sem samsvar um 0,26% hlut í félaginu. Gildi hefur því alls selt um 1,41% hlut í Icelandair frá lokum útboðsins í september.

Óvissa hafði verið um hvort Gildi tæki þátt í útboðinu . Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Jóna Sveinsdóttir, aðal- og varamenn í stjórn fulltrúaráðs Gildis, skrifuðu grein í Morgunblaðið í aðdraganda útboðsins þar sem þær lögðust gegn þátttöku Gildis í hlutafjárútboðinu. Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands er stjórnarformaður Gildis og efnahagsráðgjafi Eflingar.

Útboðsgengið í september nam 1 krónu á hlut en nú stendur gengi bréfa Icelandair í 1,58 krónum á hlut. Frá lokum útboðsins hefur dagslokagengi félagsins hæst farið í 1,84 krónur.