Viðskiptablaðið fjallaði í þarsíðustu viku um þrjá af þeim vogunarsjóðum sem keyptu kröfur á íslensku bankana Glitni, Kaupþing og Landsbanka Íslands í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Kröfur í bú bankanna námu þúsundum milljarða króna og endaði stór hluti þeirra í höndum vogunarsjóða sem keyptu þær með talsverðum afföllum.

Líkt og fram kom í síðasta Viðskiptablaði högnuðust vogunarsjóðirnir Baupost og Eton Park um tugi milljarða á viðskiptum sínum með kröfur á föllnu bankana. Báðir áttu þeir sameiginlegt að hafa losað sig við kröfur sínar löngu áður en til nauðasamninga kom, en verð á kröfum tók litlum sem engum breytingum frá og með árinu 2010. Þeir sjóðir sem keyptu kröfur sínar eftir það tímabil höfðu ekkert upp úr krafsinu og flestir þeirra sjóða sem enn áttu kröfur við nauðasamninga þurftu að sætta sig við tap upp á milljarða.

Vogunarsjóðurinn Solus Alternative Asset Management var stærsti kröfuhafi Glitnis við nauðasamninga undir nafninu Recovery Opportunities S.a.r.l. með kröfur upp á 251 ma.k.r. að nafnvirði.

Solus eignaðist sínar fyrstu kröfur á Glitni í okóber 2013 og hélt áfram að stækka við sig fram að nauðasamningum. M.v. 15% ávöxtunarkröfu tapaði sjóðurinn tæpum fimm milljörðum króna á fjárfestingu sinni. Enn verr gekk hjá vogunarsjóðnum Taconic Capital Advisors, sem átti kröfur upp á samtals 226 ma.kr. á Kaupþing og Glitni við nauðasamninga eftir að hafa fyrst eignast kröfur haustið 2012. Hreint núvirði fjárfestingar Taconic m.v. 15% ávöxtunarkröfu var neikvætt um 7,3 milljarða króna.

Taconic, Solus, Abrams Capital, Och-Ziff Capital og Soros voru þeir fimm sjóðir af þeim tíu stærstu við nauðasamninga sem keypt höfðu kröfur sínar of seint og töpuðu þannig á fjárfestingu sinni ef miðað var við væntar endurheimtur við samningana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .