Nemendahópurinn sem hefur störf við Háskólann í Reykjavík núna í haust er sá stærsti í sögu skólans. Alls eru nýnemar 1300 talsins en í fyrra var fjöldi þeirra um 1200. Metfjöldi umsókna um skólavist barst háskólanum áður en lokað var fyrir umsóknir í vor, segir í tilkynningu frá skólanum. Nemendum fjölgar í öllum námsdeildum: lagadeild, viðskiptadeild, tækni- og verkfræðideild og tölvunarfræðideild.

Aðsóknin sýnir vaxandi áhuga á þeim námsleiðum sem háskólinn býður upp á í tækni, viðskiptum og lögum, um leið og hann staðfestir sterka stöðu HR í menntun á þeim sviðum. HR útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tækninámi á háskólastigi á Íslandi, helming þeirra sem ljúka viðskiptanámi og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi.

Nýnemum fjölgar mest í tölvunafræðideild og tækni- og verkfræðideild HR, sem eru gleðitíðindi í ljósi þess að íslenskt atvinnulíf hefur kallað eftir stóreflingu tæknimenntunar.