Bernard Madoff, sem er best þekktur fyrir að hafa staðið fyrir stærsta Ponzi-svindli sögunnar, er látinn 82 ára að aldri. Reuters greinir frá.

Madoff var dæmdur í 150 ára fangelsi fyrir glæpi sína árið 2009. Hann hafði þjáðst af krónískri nýrnabilun auk annarra kvilla.

Er talið að Madoff hafi alls svikið 64,8 milljarða dala út úr þeim sem áttu í viðskiptum við hann. Nam fjöldi fórnarlamba Madoffs þúsundum og voru þar á meðal einstaklingar, góðgerðarfélög, lífeyrissjóðir og vorgunarsjóðir.

Leikararnir Kevin Bacon, Kyra Sedgwick og John Malkovich, hafnaboltagoðsögnin Sandy Koufax og góðgerðarfélag leikstjórans Steven Spielberg var meðal aðila sem voru fórnarlömb svika Madoffs. Þá áttu eigendur hafnaboltaliðsins New York Mets, sem höfðu um langa hríð verið viðskiptavinir Madoffs, um árabil í miklum vandræðum með að setja saman samkeppnishæft lið vegna þess hve háum fjárhæðum töpuðust vegna svika Madoffs. Sum fórnarlömb Madoffs töpuðu aleigunni vegna svika hans.

Yfirvöld komust á snoðir um sviksamlegt athæfi Madoffs er tveir synir hans, sem áttu engan þátt í svikunum, veittu þeim upplýsingar um glæpi föðursins.

Áhugasamir geta kynnt sér Ponzi-svindl, sem einnig er oft kallað píramítasvindl, nánar hér .