Nú á dögunum greindi Viðskiptablaðið frá styrktarsamningi spænska fótboltarisans FC Barcelona við streymisveituna Spotify, en katalónski fréttmiðillinn RAC 1 greindi fyrstur frá. Samningurinn felst í því að merki streymisveitunnar verði framan á treyjum og æfingafatnaði Barcelona. Auk þess tryggir Spotify sér réttinn á nafninu á sögufræga leikvangi Barcelona, Camp Nou. Mun leikvangurinn því bera nafnið Spotify Camp Nou í þrjú ár í hið minnsta, samkvæmt RAC 1. Hvorki Barcelona né Spotify hafa formlega staðfest samninginn.

Samningurinn er til þriggja ára. Spotify greiðir Barcelona 280 milljónir evra, um 40 milljarða króna eða 95 milljónir evra árlega, um 13,5 milljarða króna. „Þetta yrði stærsti núgildandi samningur ef við berum hann saman við samninga annarra fótboltafélaga," segir Jóhann Már Helgason, fjármálastjóri og einn hluthafa Lava Cheese og fyrrum framkvæmdastjóri Vals og Aftureldingar.

Stærsti styrktarsamningur fótboltafélags í dag er 72 milljóna evra samningur Real Madrid við flugfélagið Emirates. Á grafinu hér að neðan má sjá að fyrirhugaður samningur Barcelona við Spotify yrði talsvert stærri en aðrir núgildandi samningar. Samningurinn yrði til að mynda um tvöfalt stærri en treyjusamningur fjarskiptafélagsins Three við Evrópumeistara Chelsea. Hafa ber þó í huga að samningur Barcelona við Spotify felur einnig í sér nafngift á leikvangi félagsins, ólíkt þeim samningum sem eru til samanburðar, að undanskildum samningi Arsenal við Emirates.

Allt til sölu hjá Barcelona

Jóhann segir áhugavert að horfa til lengd samningsins. „Þegar samningar eru gerðir um nafngift á leikvangi eru þeir oftast gerðir til langs tíma. Þegar Emirates Stadium, leikvangur Arsenal, var byggður var gerður 15 ára samningur upp á 6,6 milljónir punda á ári. Eins gerði Manchester City samning við Etihad um nafngift á leikvangi félagsins upp á 55 milljónir evra á ári, en sá samningur var nánast dæmdur ólöglegur og fór alla leið upp í CAS íþróttadómstólinn vegna of mikilla tengsla milli aðila. Að lokum vann Manchester City málið hjá CAS."

Ákvörðun félagsins að selja nafnið á Camp Nou telst ansi merkileg þar sem um er að ræða einn þekkasta og stærsta fótboltaleikvang heims. Leikvangurinn hefur borið nafnið frá upphafi. Jóhann segir það meðal annars sýna í hversu mikilli neyð félagið er. „Þetta sýnir að allt er til sölu hjá Barcelona og hversu mikið félagið þarf á þessum samning að halda. En að sama skapi sýnir þetta líka hversu verðmætt Barcelona er, að Spotify sé viljugt að greiða slíkar fjárhæðir fyrir auglýsingar í gegnum félagið.“

Skulda Goldman Sachs 300 milljarða

Barcelona hefur staðið í ströngu við endurfjármögnun skulda, eftir að hafa hlaðið upp skuldum bæði til skamms og langs tíma. Samkvæmt umfjöllun Swiss Ramble námu skuldirnar 1,2 milljörðum evra á tímabilinu 2019-2020. Þar af námu skammtímaskuldir félagsins 730 milljónum evra. Þess má geta að Barcelona eyddi allt að milljarði evra í leikmannakaup á árunum 2018-2020, mest allra fótboltafélaga.

Fjárfestingabankinn Goldman Sachs greiddi upp skammtímakröfurnar að mestu leyti og lánaði Barcelona í staðinn 595 milljónir evra til 15 ára. Með láninu gat Barcelona skráð nýja leikmenn í leikmannahóp sinn fyrir keppnistímabilið, en spænska deildin er með strangar kröfur um launaþak í samræmi við tekjur og skuldir félaga. Jóhann segir samning félagsins við Spotify ná yfir allan árlegan fjármagns- og vaxtakostnað af láninu.

Barcelona gekk nýlega frá öðru 1,5 milljarða evra láni frá bankanum til að gera upp leikvang félagsins, Camp Nou. Því skuldar félagið Goldman Sachs rúma 2 milljarða evra, eða um 300 milljarða króna. Jóhann segir nýja völlinn eiga að vera tekjumódel fyrir félagið og að tekjur af alls konar viðburðarhaldi muni nema um 200 milljónum evra árlega, en leikvangurinn á að vera tilbúinn fyrir lok árs 2025.