Stærsti fasteignafélagasamruni í sögu Evrópu er á döfinni en nýverið tilkynnti hið þýska Vonovia að það hygðist sameinast Deutsche Wohnen. Fái samruninn grænt ljós samkeppnisyfirvalda mun hið nýja félag eiga um 550 þúsund íbúðir, flestar í Berlín. Um 18 milljarða evra samruna er að ræða.

Leiguverð í Berlín, þar sem Deutsche Wohnen gerir út, hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2008. Í fyrra ákvað borgarstjórn að setja á leiguþak í borginni en í síðasta mánuði dæmdi stjórnlagadómstóll Þýskalands þá löggjöf í andstöðu við stjórnarskrá.

Stjórnmálamenn og samtök af vinstri armi hins pólitíska litrófs hafa undanfarið safnað undirskriftum, á annað hundrað þúsund hafa skrifað undir, þar sem stjórnvöld eru kvött til að taka yfir eignir í eigu Deutsche Wohnen. Þau hafa einnig lagst gegn samrunanum.

Forráðamenn félaganna tveggja hafa reynt að blíðka goðin með því að lofa því að leiguverð íbúða hins sameinaða félags muni aðeins hækka um 1% á ári næstu þrjú ár. Næstu tvö ár eftir það muni leigan síðan aðeins taka breytingum í samræmi við breytingar á verðbólgu.

Áætlað markaðsvirði hins sameinaða félags er um 47 milljarðar evra en félagið hefur enn fremur boðist til að selja um 20 þúsund íbúðir úr eignasafni sínu, verðmæti þeirra er um 2 milljarðar evra, í þeirri von að samruninn fái grænt ljós.