Einn stærsti fjárfestingarsjóður í heimi er Braeburn Capital, sjóður sem stofnaður var árið 2006 til að halda utan um lausafé tæknirisans Apple. Braeburn stýrir nú 117 milljarða dollara peningahrúgu, sem safnast hefur upp innan Apple og fjárfestir féð m.a. í hlutabréfum. Sjóðurinn er töluvert stærri en stærsti vogunarsjóður heims, Bridgewater, sem er um 100 milljarðar dala að stærð.

Á viðskiptavefsíðunni Zero Hedge er fjallað um Braeburn og þar segir að Apple sé mjög tregt til að tjá sig um sjóðinn, sem sé aðallega notaður til að finna löglegar glufur í skattkerfum víða um heim. Markmiðið með sjóðnum sé að hámarka ávöxtun og lágmarka skattgreiðslur. Það sé m.a. gert með því að hafa sjóðinn í Nevada en ekki í Kalíforníu. Þá er starfsemi Braeburn þess eðlis að hann þarf nánast ekki að gefa neinar upplýsingar opinberlega um fjárfestingar sínar.