Air Atlanta er íslenskt leiguflugfélag sem var stofnað árið 1986. Höfuðstöðvarnar eru í Kópavogi og félagið gerir út 16 flugvélar. „Um áramót var Air Atlanta með 14 Boeing 747-400 vélar í rekstri, og þá var hlutfall farþegavéla og fraktvéla 50/50 eða sjö af hvorri gerð. Til viðbótar rekur félagið eina Airbus A330-200 farþegavél og eina Airbus 340-200 farþegavél, þannig að flugfloti félagsins taldi 16 breiðþotur síðastliðin áramót,“ segir Hannes Hilmarsson, framkvæmdastjóri Air Atlanta.

Félagið hefur skilað hagnaði frá fjárhagslegu endurskipulagi árið 2009, sem Hannes segir hafa verið lykilatriði í viðsnúningi félagsins. „Í kjölfarið á gríðarlegum niðurskurði á flugflota félagsins og endurskipulagningu á rekstri á árunum 2006-2008, náðist viðsnúningur í rekstri árið 2009 og hefur félagið skilað jákvæðri afkomu síðan. Það sem hefur lagt grunninn að stöðugum rekstri síðustu ár er að vel hefur tekist að halda vélum félagsins í stöðugum og arðbærum verkefnum, á sama tíma og tekist hefur að styrkja alla inniviði félagsins með auknu kostnaðaraðhaldi, betri mælanleika og skilvirkari nýtingu á upplýsingatækni,“ segir Hannes

Nánar er rætt við Hannes í sérblaði Viðskiptablaðsins um framúrskarandi fyrirtæki sem unnið var í samstarfi Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .