Þrír af stærstu bílaframleiðendum heims eru svartsýnir. Töluverður samdráttur var í sölu og hagnaði félaganna á síðasta ár og skv. frétt Financial Times reikna framleiðendurnir með að róðurinn muni þyngjast enn frekar á yfirstandandi ári. Hægari vöxtur í Kína hefur haft í för með sér samdrátt í sölu bíla og jafnframt hafa bílaframleiðendur þurft að ráðast í dýrar breytingar á framleiðslu sinni til að koma til móts við nýjar kröfur og smekk neytenda.

Toyota, General Motors og Daimler, sem samanlagt framleiða einn af hverjum fimm bílum sem seldir eru í heiminum, kynntu samhliða spá fyrir 2019 ársreikninga félaganna fyrir síðasta ár. Uppgjörin voru litlu bjartari en spárnar. Hagnaður Daimler, sem framleiðir m.a. Mercedes-Benz, dróst saman um 28%. Hagnaður Toyota á síðasta ársfjórðungi í fyrra minnkaði um 81% en hagnaður GM dróst saman um 8% á sama fjórðungi.

Þessi skarpi samdráttur kemur í kjölfar mikils vaxtar síðastliðin ár en framleiðendurnir hafa nú þegar brugðist við með því að loka verksmiðjum. Sér í lagi hafa verksmiðjur sem framleiða díselbíla orðið fyrir barðinu á niðurskurðinum en eftirspurn eftir díselbílum hefur minnkað verulega samhliða vaxandi umhverfisvitund neytenda.

Samdrátturinn nú hefur reynst framleiðendunum sérstaklega erfiður því á sama tíma hafa þeir þurft að fjárfesta mikið í nýrri tækni í rafbílaframleiðslu og búnað fyrir sjálfkeyrandi bíla. Til að bæta gráu ofan á svart hefur samkeppnin við kínverska framleiðendur harðnað til muna.