AMR Corp., móðurfélag American Airlines, hefur samþykkt að kaupa 460 flugvélar af Airbus og Boeing. Eru þetta stærstu flugvélakaup sögunnar af því er fram kemur á frétt Bloomberg. American Airlines er þriðja stærsta flugfélag í heimi. Flugvélarnar verða afhentar á árunum 2013 til 2022.

Til stendur að kaupa 260 flugvélar af gerðinni Airbus A320 og 200 af gerðinni Boeing 737. Samanlagt listaverð vélanna er 38,5 milljarðar dollarar sem byggir á meðalverði. Í samningum er ákvæði um kauprétt AMR á 465 vélum til viðbótar. Kostnaður við fjármögnun fyrstu 230 vélanna eru 13 milljarðar dollara.

Meðaldur minnkar

Nýju þoturnar eiga að leysa eldri vélar af hólmi, McDonnell Douglas MD-80 vélar sem eru að meðaltali 20 ára og Boeing 757 sem eru að meðaltali 16 ára. Árið 2010 var meðalaldur véla þeirra 15 ár. Með kaupunum lækkar meðalaldur vélanna um 33% í 9,5 ár árið 2017 sem er yngsti flugvélafloti meðal bandarískra flugfélaga.

Tap AMR

Hlutabréf AMR hækkuðu um 4,1% í 5,13 dollara í kauphöllinni í New York í morgun. Bréfin hafa fallið um 37% sem af er ári fyrir hækkunina í dag. AMR er eina stóra flugfélagið sem sérfræðingar Bloomberg spá tapi á árinu 2011. AMR tapaði 286 milljónum dollara á öðrum ársfjórðingu ársins 2011. Árið áður nam tapið 11 milljonum dollara. Hlutbréf Boeing hækkuðu um 42 sent í 70,95 dollara í New York og Airbus hækkaði um 3%, í 24,66 evrur í kauphöllinni í París.