*

laugardagur, 16. janúar 2021
Frjáls verslun 25. desember 2020 17:02

Stærstu fyrirtæki heims 1-5

Af fimm stærstu fyrirtækjum heims eru þrjú kínversk ríkisorku- og veitufyrirtæki.

Ingvar Haraldsson
epa

Það er tímanna tákn að af tíu stærstu fyrirtækjum heims séu þrjú kínversk ríkisorku- og veitufyrirtæki og að helmingur stærstu fyrirtækjanna sé olíu- og gasvinnslufélög. Alls eru sex fyrirtæki á listanum asísk, tvö bandarísk og tvö evrópsk þó að starfsemi þeirra flestra teygi sig um heim allan. Yfir sjö milljónir manna starfa hjá fyrirtækjunum tíu og er samanlögð velta þeirra hátt í 500 þúsund milljarðar króna sem samsvarar um það bil landsframleiðslu Þýskalands, fjórða stærsta hagkerfis heimsins. Hér er fjallað um fimm stærstu fyrirtækin á listanum en greinin birtist fyrst í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun gaf út.

1. Walmart

Bandaríska verslanakeðjan Walmart er tekjuhæsta fyrirtæki heims sem og fjölmennasti vinnustaður heims ef frá eru taldir herir Bandaríkjanna og Kína en um 2,2 milljónir starfa hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið veltir um 73 þúsund milljörðum íslenskra króna á ári. Sam Walton stofnaði fyrirtækið árið 1962. Waltonfjölskyldan á enn ríflega helmingshlut í fyrirtækinu og er almennt talin vera ríkasta fjölskylda heims. Í dag eru verslanir Walmart um 11.500 í 27 löndum undir 56 ólíkum nöfnum.

 • Velta: 72.800 milljarðar
 • Hagnaður: 2.100 milljarðar
 • Eignir: 32.850 milljarðar
 • Starfsmenn: 2,2 milljónir

2. Sinopec

Sinopec, sem er skammstöfun fyrir Kínverska olíu- og efnafélagið er stærsta fyrirtæki heims. Félagið er umsvifamesti dreifingaraðili heims á olíu, næstumsvifamest á sviði olíu- og gasvinnslu í heiminum og þriðja umsvifamesta efnavinnslufélag heims. Fyrir utan Kína er félagið með talsverða starfsemi í Afríku. Sinopec er að meirihluta í eigu kínverska ríkisins eins og önnur kínversk fyrirtæki á listanum en þó eiga alþjóðlegir fjárfestingasjóðir nokkurn hluta í félaginu sem er skráð á markað í Hong Kong og Sjanghæ.

 • Velta: 56.500 milljarðar
 • Hagnaður: 940 milljarðar
 • Eignir: 44.100 milljarðar
 • Starfsmenn: 583 þúsund

3. SGCC

SGCC, eða Rafveitufélag kínverska ríkisins, er þriðja stærsta fyrirtæki heims þegar kemur að tekjum og sér yfir milljörðum manna fyrir raforku eða um sjöunda hverjum jarðarbúa. Yfir milljón manns starfa hjá fyrirtækinu sem var stofnað árið 2002 við uppstokkun á kínverskum raforkumarkaði þar sem framleiðendur raforku voru aðskildir frá dreifikerfinu. Félagið þarf að leika lykilhlutverk ef markmið Xi Jinping, forseta Kína, á að takast um kolefnahlutleysi landsins árið 2060.

 • Velta: 53.300 milljarðar
 • Hagnaður: 1.100 milljarðar
 • Eignir: 82.900 milljarðar
 • Starfsmenn: 908 þúsund

4. CNPC

Kínverska ríkisolíufélagið CNPC var stofnað árið 1988 á grunni kínverska olíumálaráðuneytisins og er þriðji kínverski risinn á listanum. Það sinnir, líkt og Sinopec, olíuvinnslu alla virðiskeðjuna, frá olíuleit og -vinnslu og niður í smásölu á olíu og gasi. Það hefur einnig reist og rekið stórar gas- og olíuleiðslur. Kínversk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina skoðað að sameina félögin tvö en hafa ekki látið verða af því enn sem komið er.

 • Velta: 52.700 milljarðar
 • Hagnaður: 620 milljarðar
 • Eignir: 84.500 milljarðar
 • Starfsmenn: 1,34 milljónir

5. Shell

Olíu- og gasrisinn Shell hóf starfsemi árið 1907 um olíuvinnslu Hollendinga í Hollensku Austur-Indíum, sem í dag heitir Indónesía. Félagið tilkynnti nýverið að það hygðist fækka starfsfólki um allt að 9 þúsund og auka áherslu á endurnýtanlega orkugjafa til að standa betur í þeim orkuskiptum sem fram undan eru á næstu árum. Þá hefur heimsfaraldurinn dregið úr eftirspurn eftir olíu sem hefur áhrif á ákvörðunina en félagið hefur tapað stórfé í faraldrinum, líkt og önnur olíufélög.

 • Velta: 48.900 milljarðar
 • Hagnaður: 2.200 milljarðar
 • Eignir: 56.200 milljarðar
 • Starfsmenn: 83 þúsund

Greinin birtist í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu. Hægt er að tryggja sér eintak af bókinni hér.