*

fimmtudagur, 22. október 2020
Frjáls verslun 24. desember 2019 14:03

Stærstu fyrirtæki Norðurlandanna 6-10

Yfir 600 þúsund manns starfa hjá tíu stærstu fyrirtækjum Norðurlandanna.

Ingvar Haraldsson
Höfuðstöðvar Ericsson í Sviþjóð.
epa

Stærstu fyrirtæki Norðurlandanna eru flest alþjóðleg stórfyrirtæki með starfsemi í flestum heimsálfum. Athygli vekur að meðalaldur tíu stærstu fyrirtækjanna er 107 ár. Samanlögð velta fyrirtækjanna nemur 35 þúsund milljörðum íslenskra króna, þau högnuðust samanlagt um 3.600 milljarða króna í fyrra og hjá þeim starfa 657 þúsund starfsmenn.

6. Ericsson

Ericsson var eitt fyrsta fyrirtæki heimsins til framleiða síma þegar sú tækni var að ryðja sér til rúms undir lok 19. aldar. Fyrirtækið sinnir flestum hliðum fjarskipta og upplýsingatækni. Ericsson er einna umsvifamest í innviðum fyrir fjarskipti í dag eftir að hafa selt sinn hlut í farsímahlutaframleiðandanum Sony Ericsson til Sony árið 2012.

 • Velta: 2.626 milljarðar
 • Hagnaður: 78 milljarðar
 • Starfsmenn: 95 þúsund
 • Stofnað: 1876

7. H&M

 Samstæða H&M rekur í dag 4.900 verslanir í yfir 70 löndum. Erling Persson stofnaði fyrirtækið árið 1947 en fyrirtækinu er nú stýrt af barnabarni hans, Karl- Johan Persson. H&M hefur vaxið hratt á síðustu árum. Fjöldi verslana fyrirtækisins hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2012.

 • Velta: 2.621 milljarður
 • Hagnaður: 158 milljarðar
 • Starfsmenn: 123 þúsund
 • Stofnað: 1947

8. Skanska

Skanska er eitt stærsta verktakafyrirtæki heims. Fyrirtækið er með starfsemi víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Um aldamótin var það einnig stórtækt víða í Asíu og Suður-Ameríku en þeirri starfsemi hefur verið hætt. Fyrirtækið byggði meðal annars háhýsið „Gúrkuna“ í London og World Trade Center lestarstöðina á Manhattan sem var opnuð árið 2015.

 • Velta: 2 .139 milljarðar
 • Hagnaður: 57 milljarðar
 • Starfsmenn: 38 þúsund
 • Stofnað: 1887

9. Norsk Hydro ASA

  Norsk Hydro er einn stærsti álframleiðandi heims og einn stærsti rafmagnsframleiðandi Noregs. Fyrirtækið er með starfsemi í fimmtíu löndum. Norska ríkið á ríflega þriðjungshlut í fyrirtækinu. Fyrirtækið hugðist kaupa álverið í Straumsvík en féll frá því á síðasta ári.

 • Velta : 2.121 milljarður
 • Hagnaður: 60 milljarðar
 • Starfsmenn: 35 þúsund
 • Stofnað: 1905

10. Vattenfall

Sænska ríkisorkufyrirtækið Vattenfall rak fyrst og fremst vatnsaflsvirkjanir fyrstu áratugina en byggði fyrsta kjarnorkuverið árið 1974. Það er í dag með starfsemi í nokkrum Evrópulöndum. t.d. í Þýskalandi, Hollandi og Póllandi. Fyrirtækið komst í heimsfréttirnar árið 1986 þegar geislun mældist við kjarnorkuver fyrirtækisins í Svíþjóð í kjölfar Chernobyl slyssins. Það varð til þess að sovésk stjórnvöld neyddust til að viðurkenna að slysið átti sér stað.

 • Velta : 1.953 milljarðar
 • Hagnaður: 150 milljarðar
 • Starfsmenn: 20 þúsund
 • Stofnað: 1909

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.