Sænski fjarskiptarisinn Ericsson hefur náð samkomulagi um yfirtöku á bandaríska skýjaþjónustufyrirtækinu Vonage. Ericsson mun greiða 6,2 milljarða dala fyrir kaupin með handbæru fé. Um er að ræða stærstu kaup í sögu sænska fyrirtækisins sem hefur staðið í endurskipulagningu á rekstri sínum á síðustu árum, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Hlutabréfaverð Vonage, sem skráð er á bandarískan hlutabréfamarkað, hefur hækkað um fjórðung í viðskiptum fyrir opnun markaða. Ericsson hyggst greiða hluthöfum Vonage 21 dollara á hlut en dagslokagengi félagsins á föstudaginn var 16,4 dollarar. Markaðsvirði Vonage nam 3,6 milljörðum dala í september áður en áhrifafjárfestirinn Jana Partners byrjaði að kalla eftir því að félagið yrði selt eða skipt upp í minni einingar.

Ericsson er sagt horfa til þess að færa sig í auknum mæli inn á svið fyrirtækjaþróunar (e. enterprise business). Skýjaþjónusta Vonage er með 120 þúsund viðskiptavini og þjónustar um eina milljón þróunaraðila. Ericsson vonast til að nýta aukinn hraða og möguleika 5G-kerfisins til að búa til opinn vettvang fyrir nýsköpun, meðal annars hjá símafyrirtækjum. Sænska fyrirtækið væntir þess að tekjusamlegðaráhrif af kaupunum hljóði upp á 400 milljónir dala.