Microsoft hefur náð samningum um kaup á tölvuleikjafyrirtækinu Activision Blizzard fyrir 68,7 milljarða dala, eða sem nemur 8.847 milljörðum króna. Þar af leiðandi greiðir Microsoft 95 dali fyrir hvern hlut í tölvuleikjafyrirtækinu. Er um að ræða langstærstu fyrirtækjakaup í sögu Microsoft. WSJ greinir frá þessu.

Bobby Kotick mun áfram gegna stöðu forstjóra hjá Activision Blizzard er kaupin verða endanlega frágengin, en hann hefur gegnt þeirri stöðu í ríflega þrjá áratugi.

Stjórnarhættir og sú vinnustaðamenning sem myndast hefur í valdatíð hans hefur legið undir harðri gagnrýni. Hefur nokkur fjöldi kvenna sem unnið hafa hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina stigið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni og launamismunun sem ku hafa þrifist innan raða þess.

Activision Blizzard hefur framleitt marga tölvuleiki sem hafa farið sigurför um heiminn og nægir í því samhengi að nefna leiki á borð við Crash Bandicoot, World of Warcraft, Call of Duty, Diablo, Candy Crush og Overwatch.

Þá er fyrirtækið á lista Fortune 500 yfir 500 stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna, auk þess sem hlutabréf félagsins eru hluti af S&P 500 úrvalsvísitölunni vestanhafs.