Fjögur stærstu endurskoðunarfyrirtæki landsins högnuðust samtals um 945 milljónir króna á rekstrarárinu 2009. Þar af nam hagnaður KPMG um 498 milljónum króna, eða meira en PwC, Deloitte og Ernst & Young högnuðust samanlagt.

Íslensk endurskoðunarfyrirtæki hafa verið mjög í sviðsljósinu eftir bankahrun. Stærstu fyrirtækin í geiranum sáu um að skrifa upp á reikninga banka og annarra fyrirtækja sem féllu síðar með látum. Störf þeirra fyrir bankana hafa orðið til þess að embætti sérstaks saksóknara gerði húsleitir hjá PwC, KPMG og Deloitte í október 2009.

Hrunið hefur þó greinilega ekki dregið úr umsvifum endurskoðunarfyrirtækja, enda starfar 2/3 hluti allra endurskoðenda hjá þessum fjórum stærstu. Þau hafa þvert á móti haft nóg að gera, meðal annars við að vinna að rannsóknum á gjörningum banka og annarra fyrirtækja. Þau virðast líka hafa ágætlega upp úr krafsinu miðað við síðustu birtu ársreikninga þeirra.

Ítarlega úttekt á afkomu endurskoðunarfyrirtækjanna er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan. Viðskiptablaðið er selt í lausasölu í þessum verslunum.