Með sölunni á Actavis hefur Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður og fjárfestir, stigið stórt skref í skuldauppgjöri sínu við kröfuhafa. Sem kunnugt er var í síðustu viku gengið frá kaupum bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson á Actavis fyrir 4,25 milljarða evra, eða um 700 milljarða króna. Stærsti hluti þess fjármagns rennur til helsta kröfuhafa Björgólfs Thors, þýska bankans Deutsche Bank.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fréttaskýring um skuldauppgjör Björgólfs Thors. Þar er aðkoma hans að Actavis rifjuð upp auk þess sem fjallað er um fyrri ummæli hans um skuldauppgjör sitt í viðtali við Viðskiptablaðið sumarið 2010.

Til gamans má rifja upp að Actavis hét áður Pharmaco en Björgólfur Thor kom að fyrirtækinu um aldamótin eftir að félagið varð stærsti hluthafinn í búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma. Hann hafði milligöngu um þau viðskipti og keypti stuttu síðar 15% hlut í Pharmaco af Búnaðarbanka Íslands. Hann varð í kjölfarið stjórnarformaður félagsins.

Árið 2002 keypti Pharmaco íslenska lyfjafyrirtækið Delta og sameinuðust félögin í framhaldinu en nafni félagsins var breytt í Actavis árið 2004. Það var síðan vorið 2007 sem félög undir forystu Björgólfs Thors gerðu tilboð í allt hlutafé félagsins. Heildarverðmæti viðskiptanna námu um 5,3 milljörðum evra. Félög Björgólfs Thors lögðu til um 1,2 milljarða evra en fengu sem fyrr segir að láni 4,1 milljarð evra, að mestu frá Deutsche Bank.

Þessi viðskipti voru, og eru enn, stærstu viðskipti Íslandssögunnar. Félagið var í ágúst 2007 skráð af markaði. Björgólfur Thor var stjórnarformaður Actavis fram á haustið 2010, eða í tæp 10 ár, þegar Claudio Albrecht forstjóri tók við sem starfandi stjórnarformaður. Hann gegnir enn báðum þessum störfum en Björgólfur Thor situr þó enn í stjórn félagsins.

Nánar er fjallað um skuldauppgjör Björgólfs Thors í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.