Verðmæti útflutningsframleiðslu sjávarafurða nam á síðasta ári um 220 milljörðum króna og jókst um 10% á milli ára samkvæmt nýrri útgáfu Hagtíðinda Hagstofunnar sem út komu í fyrradag og eru aðgengileg á vef stofnunarinnar. Þar segir að um sé að ræða samtölu útflutnings og birgðabreytinga. Mælt á föstu verðlagi jókst framleiðslan um 6% á milli ára.

Fluttar voru út sjávarafurðir að verðmæti 220,5 milljarða króna og jókst útflutningurinn á föstu verðlagi um 5,7% en dróst saman að magni um 5,5%. Alls voru flutt út 632 þúsund tonn en árið 2009 voru flutt út 669 þúsund tonn af sjávarafurðum. Langstærstur hluti útflutnings sjávarafurða var til EES-svæðisins, um 73%.