Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur úrskurðað að Samkeppniseftirlitið hafi farið að reglum með fullnægjandi hætti varðandi umfjöllunar sinnar um málefni Sundagarða ehf. og ákvörðun þess um að gera félaginu að borga 750 þúsund krónur í sekt fyrir brot gegn samkeppnislögum vera réttmæta. „Þykir umrædd sektarfjárhæð ekki há þegar haft er mið af alvarleika brotsins,” segir meðal annars í niðurstöðum nefndarinnar.

Málavextir eru þeir helstir í vor komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Sundagarðar ehf. hefðu brotið gegn samkeppnislögum með því að tilkynna því ekki innan tilskilins frests um samruna þess við Borgarnes kjötvörur ehf., og dæmdi félagið til greiðslu fyrrnefndrar sektar. Sundagarðar ehf. áfrýjuðu þessari niðurstöðu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og gerði um það kröfu að hún yrði felld úr gildi, en til vara að sektin yrði lækkuð verulega.

Ekki há sekt miðað við alvarleika brotsins

Í niðurstöðu áfrýjunarnefndar segir m.a. að ekki fari á milli mála að forsvarsmönnum Sundagarða hafi verið fulljóst að þeim bæri skylda til að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um samruna af umræddu tagi innan viku frá samningslokum. Þó sinntu þeir ekki lögboðinni tilkynningaskyldu sinni í langan tíma þrátt fyrir kröfur Samkeppniseftirlitsins þar að lútandi. Liðnir hafi verið á þriðja mánuð frá undirritun samnings um samrunann þangað til Samkeppniseftirlitinu bárust ófullkomnar upplýsingar og rúm vika frá þeim tíma þangað til fullægjandi upplýsingar bárust. Þá segir í niðurstöðu nefndarinnar:

„Áfrýjunarnefnd telur að ákvæði samkeppnislaga um tilkynningaskyldu vegna samruna sé afar mikilvægt og að nauðsynlegri tilsjón Samkeppniseftirlitsins vegna samruna fyrirtækja, sem áhrif hafa á markaði, verði ekki haldið upp nema það sé virt. Brot á ákvæðum um tilkynningaskyldu eru því alvarleg, einkum þegar svo langur tími líður frá því að samruni fer fram og þar til fullnægjandi tilkynning berst Samkeppniseftirlitinu og raunin var í þessu máli. Þykir umrædd sektarfjárhæð ekki há þegar haft er mið af alvarleika brotsins”