Tryggvi Gunnarsson og Páll Hreinsson, sem báðir sitja í Rannsóknarnefnd Alþingis, sögðu á blaðamannafundi fyrr í dag að birting skýrslu nefndarinnar myndi seinka m.a. vegna þess  að opinberir starfsmenn, embættis- og stjórnmálamenn þar með taldir, hafa andmælarétt vegna athugsemda sem nefndin gerir við störf þeirra í aðdraganda hrunsins.

Þetta er í fyrsta skipti sem nefndarmenn staðfesta að nefndin hafi upplýsingar um það að opinberir starfsmenn, ráðherrar og stjórnarmálamenn þar á meðal, hafi brugðist svo mikið í störfum sínum í aðdraganda hrunsins að það kunni að varða við lög.

Vonir standa til þess að skýrslan verði birt í fyrri hluta febrúarmánaðar en hugsanlegt er að það verði þó ekki fyrr en um mánaðarmótin febrúar/mars.

Tryggvi og Páll sögðu að það hefði verið vandkvæðum bundið að takmarka athugasemdir við einstakar athafnir eða athafnaleysi opinbera starfsmanna eftir atvikum.

„Samkvæmt lögum ber nefndinni að gera þeim sem ætla má að orðið hafi á mistök eða hafi orðið uppvís að vanrækslu í starfi skriflega grein fyrir afstöðu sinni og eftir atvikum lagatúlkun á þeim atriðum sem varða þátt þeirra í málinu og nefndin íhugar að fjalla um í skýrslu til Alþingis. Tekið er fram að nefndin skuli veita viðkomandi hæfilegan frest til að gera skriflega athugasemd við þessi atriði. Við rannsókn nefndarinnar hefur komið í ljós að þau atriði sem kunna að veita tilefni til þess að gefa hlutaðeigandi kost á að senda nefndinni athugasemdir, vegna þessa ákvæðis, eru gjarnan ekki bundin við afmörkuð tilvik, athöfn eða athafnaleysi, heldur koma þar fleiri atriði sameiginlega til mats. Nefndin hefur því staðið frammi fyrir þeim vandkvæðum að næsta örðugt hefur verið að framkvæma þennan athugasemdarétt fyrr en sú heildarmynd, sem rannsókn nefndarinnar er ætlað að draga upp, liggur fyrir. Til þess hefur þurft að ljúka einstökum þáttum í rannsókn nefndarinnar og draga saman niðurstöður af þeim. Nú þegar endanlegur grundvöllur að því að kynna þeim sem fá eiga umræddan athugasemdarétt þau atriði sem þar falla undir mun nefndin á eins skömmum tíma og kostur er framkvæma þetta ákvæði laganna. Nefndin telur rétt að minna á að eðli málsins samkvæmt hafa þeir einstaklingar sem þarna eiga hlut að máli þegar almennt í skýrslum fyrir nefndinni tjáð sig um þau atvik eða athafnaleysi sem þarna reynir á,“ segir í tilkynningu sem nefndin sendi frá sér að blaðamannafundi loknum.

Hvað starfsmenn einkafyrirtækja varðar, þar á meðal bankanna, sagði Tryggvi að það væri öðruvísi að farið í þeirra tilfellum. Til að mynda yrði sérstakur kafli í skýrslunni tileinkaður málum sem nefndin vísar til embættis sérstaks saksóknara vegna gruns um brot á lögum. Þá sagði Tryggvi að þeir sem teldu lög hafa verið brotin að hálfu einkafyrirtækja ættu að geta höfðað mál gegn þeim fyrir dómstólum.

Umfangsmeiri vinna en gert var ráð fyrir

Rannsóknarnefndin, sem Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur situr í með Tryggva og Páli, hefur unnið nær sleitulaust undanfarin misseri að því að ljúka við skýrsluna. Fram kom í máli Tryggva að ígildi um 30 ársverka hefðu verið unnin af starfsmönnum nefndarinnar. Þeirra á meðal eru fyrrverandi starfsmenn bankanna og fræðimenn við erlenda háskóla.

Aðspurður hvort það gæti skapað vandamál að vera með fyrrverandi starfsmenn bankanna sem starfsmenn nefndarinnar, sögðu Páll og Tryggvi að nauðsynlegt væri að vera með starfsmenn sem þekktu viðfangsefnið vel. Vitnuðu þeir meðal annars til verklags fjármálaeftirlita í Danmörku og Noregi þar sem lagt er upp með að vera með starfsmenn sem helst hafa minnst fimm ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði, ýmist innan banka eða eftirlitsstofnanna. Sögðu þeir starfsfólk nefndarinnar hafa lagt gríðarlega mikið á sig til þess að skýra það sem úrskeiðis fór sem best. Allir hefðu staðið sig með miklum sóma.

Ljóst væri hins vegar að vinnan hefði verið mun umfangsmeiri en gert hefði verið ráð fyrir. Nú er ráð fyrir því gert að skýrsla nefndarinnar verði á bilinu 1.500 til 2.000 blaðsíður að lengd.

Heimildarvinna nefndarinnar er að mestu búin en þó hefur sífellt verið að bætast við af upplýsingum, fram á síðustu stundu, sem Tryggvi og Páll segja að hafi gefið gleggri mynd af því sem leiddi til hruns bankanna haustið 2008. Um 150 hafa verið yfirheyrðir sérstaklega við vinnu nefndarinnar og rætt hefur verið við yfir 300 manns.