Í tölvupósti viðskiptaráðuneytisins til breska fjármálaráðuneytisins hinn 14. ágúst 2008 segir að það sé alveg skýrt samkvæmt lögum að innstæðutryggingasjóði beri að greiða út kröfur allt að 20.887 evrum og „því mundi stjórnin ávallt leita eftir láni til þess að tryggja að sjóðurinn greiði út það lágmark."

Umræddur tölvupóstur er birtur í skriflegu svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks. Ekki kemur fram í svarinu hver hjá viðskiptaráðuneytinu sendir póstinn eða skrifar undir hann.

Pósturinn hefst á þessum orðum í íslenskri þýðingu:„Ágæti hr. Maxwell. Þakka yður fyrir bréf yðar dags. 7. ágúst. Skilningur yðar á íslenskum lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er að flestu leyti réttur."

Síðan segir: „Við viljum hins vegar benda á að lagaleg greiðsluábyrgð samkvæmt kerfinu takmarkast við þá fjármuni sem tiltækir eru þegar um er að ræða fjárhæðir umfram 20.887 evrur (fjárhæðin 1,7 millj. kr. samkvæmt lögunum er bundin kaupgengi evrunnar 5. janúar 1999, sem var 20.887 evrur). Það ætti einnig að svara 1. spurningu yðar. Það er alveg skýrt samkvæmt lögunum að sjóðnum ber að greiða út kröfur allt að 20.887 evrum og því mundi stjórnin ávallt leita eftir láni til þess að tryggja að sjóðurinn greiði út það lágmark."

Svarið í heild má finna hér.