Viðskiptaþátturinn á Útvarpi Sögu (99,4) í dag verður að mestu á stafrænum nótum. Þátturinn hefst á viðtali við Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóra eMAX, en hann hefur áhyggjur af því að menn ætli sér að niðurgreiða dreifikerfi Símans í nafni byggðarsjónarmiða, en Stefán segir það koma illa niður á fyrirtækjum á borð við eMax, sem hafi nú þegar boðið landsbyggðinni upp á þráðlaust breiðband á mun hagkvæmari hátt en Síminn og Og Vodafone geti boðið.

Að því tökum við okkur smá hlé frá tækninni og förum yfir í stangveiðina - Þröstur Elliðason frá Veiðiþjónustunni Strengjum kíkir í þáttinn og fer yfir veiðitímabilið en það hefur verið metveiði hjá Þresti í sumar - það féll til dæmis nýlega met í Hrútafjarðaránni en veiðin er komin í 560 laxa síðast þegar fréttist - en aldrei hefur veiðst meiri veiði í ánni.

Í seinni hluta þáttarins verður aftur farið yfir í stafrænu tæknina, ljósleiðara og þjónustu sem tengist þessari tækni. Við heyrum fyrst í Arnþóri Halldórssyni, framkvæmdastjóra IP fjarskipta, en það er nýtt fyrirtæki sem Íslenska útvarpsfélagið keypti helmingshlut í í vikunni. IP fjarskipi hyggjast í haust bjóða upp á háhraða internet, símaþjónustu og sjónvarp. Arnþór var áður framkvæmdastjóri hjá Iceland Express, en hann hefur nú látið af störfum þar á bæ.

Botninn í þáttinn verður slegin með spjalli við Lárus Pál Ólafsson, framkvæmdastjóra Digital Reykjavík, en það er alþjóðleg ráðstefna um gagnaflutninga yfir breiðband - ráðstefnan verður haldin 29. september - 1. október næstkomandi.