Þann 1. nóvember næstkomandi mun Íslenska útvarpsfélagið hefja stafrænar sjónvarpsútsendingar í gegnum nýtt stafrænt dreifikerfi sem hefur hlotið nafnið Digital Ísland. Undirbúningur og þróun dreifikerfisins hefur staðið yfir í á þriðja ár en fjárfesting Íslenska útvarpsfélagsins vegna þess nemur um 400 milljónum króna. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. "Við erum að breyta sjónvarpsumhverfinu á Íslandi og færa það til nútímans," segir Sigurður G. Guðjónsson, útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins og segir þessar breytingar mjög spennandi.

Samhliða því að sjónvarpsstöðvar Íslenska útvarpsfélagsins verða stafrænar í nóvemberbyrjun, verður erlendum stöðvum sem félagið býður upp á fjölgað úr fjórtán í fjörtíu, og stefnan er að fjölga þeim enn frekar. Með stafræna dreifikerfinu nýtist hver útsendingarrás félagsins betur, en þær eru 16 í dag. "Þegar stafræna sjónvarpið verður fullbúið hjá okkur hér í Reykjavík, upp úr miðju næsta ári, þá ættum við að geta boðið upp á 112-160 sjónvarpsrásir," segir Sigurður og bætir við að þetta sé í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað í Evrópu.

Fyrst í stað verða stafrænar útsendingar Íslenska útvarpsfélagsins aðeins á Faxaflóasvæðinu, frá Akranesi til Reykjaness. Áskrifendur munu þurfa nýjan myndlykil sem verður afhentur þeim án endurgjalds og einnig örbylgjuloftnet. Íslenska útvarpsfélagið útvegar áskrifendum sínum sem ekki eiga örbylgjuloftnet það án endurgjalds. Í öðrum áfanga uppbyggingar Digital Íslands er stefnt að því að ná til 95% heimila landsins og verður ráðist í þann áfanga um leið og Póst- og fjarskiptastofnun heimilar Íslenska útvarpsfélaginu að gera dreifikerfi Sýnar stafrænt. "Við reiknum með að fjölga áskrifendum á Stöð 2 og Sýn og munum bjóða upp á mjög sterkan íþróttapakka með Sýn, til dæmis MU TV og Chelsea TV og þegar Arsenal og Liverpool verða tilbúin með sýnar sjónvarpsstöðvar verða þær þarna," segir Sigurður að lokum en Íslenska útvarpsfélagið mun bjóða landsmönnum upp á gríðarlegt úrval af sjónvarpsefni af öllu mögulegu tagi.