Upplýsingafyrirtækið Staki hefur samið um að taka við öllum verkefnum fyrirtækisins Platon, sem er í eigu danskra aðila og starfar í upplýsingastýringu og viðskiptagreind.

„Við erum að taka við öllum þeirra verkefnum og öllum þeirra skyldum og tekjum,“ segir Jón Eyfjörð hjá Staka. Fimm menn hafa unnið hjá Platón en þrír þeirra munu flytja sig til Staka og halda áfram að sinna þeim verkefnum sem þeir áður sinntu. Tveir af þeim starfsmönnum sem unnu hjá Platon fara í önnur verkefni. „Þetta er viðbót við það sem við erum að gera,“ segir Jón og bætir við að með þessari nýju starfsemi muni þjónustuframboð Staka aukast.

Staki er verkfræði- og hugbúnaðarhús, þjónustufyrirtæki sem skiptist í meginatriðum í þrjú svið; tækni og verkfræði, hugbúnaðargerð og ráðgjöf og rafræn viðskipti. Félagið er stofnað 2008 og er í eigu Símans. Áður en starfsemi Platon bættist við hjá Staka þá störfuðu 20 manns hjá Staka.