Litháskur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í upphafi viku dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að hafa ítrekað stolið sígarettum úr Fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Alls stal maðurinn 265 kartonum af sígarettum auk ilmvatns og áfengis. Áætlað verðmæti þýfisins var rúmlega 1,7 milljón króna.

Brot mannsins fóru fram með þeim hætti að hann, í félagi við þrjá aðra menn, keypti flugmiða, fór í brottfararsalinn og stakk þar kartonum af sígarettum í tösku sína og yfirgaf því næst flugvöllinn. Brotin hófust í júní í fyrra og stóðu allt sumarið en alls var hann ákærður fyrir sautján slík tilvik.

Til að mynda fór hann í slíka ferð fimm sinnum á tíu daga tímabili í lok ágúst og stal þá 101 kartoni á þeim tíma. Maðurinn var handtekinn í september í fyrra og játaði þá að hafa í einhver skipti nappað nokkrum sígarettum. Hann var síðan handtekinn á ný í febrúar á þessu ári og þá með sígarettur, ilmvatn og áfengi með sér. Hefur hann setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Fyrir dómi neitaði maðurinn sök. Sagði hann að hann ferðaðist mikið en stundum kæmi það fyrir að hann innritaði sig í flug en færi ekki í ferðina. Mætti það meðal annars rekja til mikillar ölvunar eða þá að honum snerist hugur í miðjum klíðum. Eitt sinn hefði hann til að mynda ætlað til London til að hitta son sinn en fengið af því fregnir, í brottfararsalnum, að sonurinn væri á leið hingað til lands. Því hefði hann hætt við.

Að mati dómsins var nokkur ólíkindablær yfir útskýringum mannsins. Þá var misræmi í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Framburðurinn stangaðist einnig á við myndbandsupptökur úr öryggiskerfi sem sýndu manninn koma varningnum fyrir í ferðatösku sem hann var með meðferðis. Þegar myndirnar voru lagðar fyrir manninn fyrir dómi kannaðist hann við sjálfan sig á þeim er hann gekk í brotfararsalinn. Hann kannaðist hins vegar ekki við sig þegar myndirnar og upptökurnar sýndu hann koma varningnum fyrir í töskunni.

Meðreiðarsveinar mannsins í brotunum hafa ekki fundist og er talið víst að minnst tveir þeirra séu farnir af landi brott. Að mati dómsins var framburður mannsins, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, á þann veg að hann gerði vísvitandi minna úr þætti samverkamanna sinna til að hlífa þeim en fyrrgreindar upptökur sýna að mennirnir fjórir báru sig eins að við verkið.

Sem fyrr segir hlaut maðurinn átta mánaða fangelsisdóm en við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn sýndi af sér einbeittan brotavilja, brotin voru ítrekuð og unnin í samvinnu við aðra. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald sem maðurinn sætti í september í fyrra og frá febrúar þessa árs.

Þá var hann dæmdur til að greiða Fríhöfninni 1,6 milljón krónur en krafa Fríhafnarinnar hljóðaði upp á rúmlega 1,7 milljónir. 125 þúsund krónur voru dregnar frá þar sem lögreglan náði að haldleggja varninginn sem maðurinn stal í febrúar þetta ár.