Engin lausn er í sjónmáli í kjaradeilu sjómanna og SFS. Helstu kröfur sjómanna snúa að vinnutíma og mönnun á skipum, en svo virðist sem óánægja margra sjómanna grundvallist á talsverðri kauplækkun vegna styrkingar krónunnar samkvæmt framkvæmdastjóra SFS.

Fjárhagslegt tjón útgerðarinnar af verkfallinu hleypur á tugum milljarða næstu mánuðina, en einnig veldur verkfallið samfélagslegu tjóni.

Rúm vika er liðin frá því að íslenski fiskiskipaflotinn dró inn veiðarfæri sín og hélt til hafnar.

Ótímabundið verkfall sjómanna hefur staðið yfir frá því að Sjómannasamband Íslands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Sjómannafélag Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Félag vélstjóra og málmtæknimanna felldu nýgerða kjarasamninga við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í atkvæðagreiðslum á milli miðvikudags og föstudags í síðustu viku. Í öllum tilfellum var niðurstaðan afgerandi.

Kjaraviðræður hafa engan árangur borið og eru erfiðar viðræður fram undan. Óljóst er hversu lengi fiskiskipaflotinn þarf að liggja við bryggju, en verkfallið kemur til með að hafa víðtæk fjárhagsleg áhrif á íslenskan sjávarútveg og samfélagið í heild sinni.

Bitnar á samfélaginu

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir þó óljóst á hvaða forsendum sjómenn felldu síðustu kjarasamninga.

„Forsendurnar fyrir óánægju sjómanna eru óljósar. Við heyrum raddir um gengisþróun og sterka krónu, sem hefur leitt til þess að hlutur sjómanna hefur lækkað. Það verður ekki læknað með kjarasamningum. Það sama á þó við um útgerðina. Þeir deila gleði og sorg,“ segir Heiðrún.

Sjómannaverkfallið mun hafa víðtæk áhrif í efnahagslífinu, enda er sjávarútvegurinn næststærsta útflutningsgrein þjóðarinnar á eftir ferðaþjónustunni. Verkfallið er nú þegar farið að bíta.

Alls voru 39 tonn af fiski boðin upp á mörkuðum í fyrradag, en á meðaldegi eru 350 tonn boðin upp. Áætlað er að verkfallið kosti íslensk sjávarútvegsfyrirtæki um 640 milljónir króna á dag í tapaðar útflutningstekjur.

„Erfitt er að meta fjárhagslegt tjón af verkfallinu öðruvísi en að horfa á útflutningstekjur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Í desember, janúar og febrúar eru útflutningsverðmætin í kringum 5 milljarðar króna á viku. Verkfall til tveggja eða þriggja mánaða gæti því hlaupið á 50-60 milljörðum í tapaðar útflutningstekjur,“ segir Heiðrún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift .