Gerðardómsmál sem HS Orka hefur höfðað gegn Norðuráli verður ekki leitt til lykta fyrr en á næsta ári nema að samningar náist milli fyrirtækjanna, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins . Félögin deila enn um túlkun á niðurstöðu gerðardóms frá því í desember um orkusölusamninga.

Í desember komst gerðardómur að þeirri niðurstöðu að standa ætti við orkusölusamning milli HS Orku og Norðuráls vegna álvers í Helguvík. Hins vegar er deilt um ýmsa fyrirvara í samningnum og hafa Norðurál og HS Orka verið í viðræðum um þá. Litlar líkur eru hins vegar taldar á því að samningar séu að nást þar, að því er segir í fréttinni.

Að auki er í gangi annað gerðardómsmál milli fyrirtækjanna, sem var höfðað skömmu eftir að niðurstaðan kom í fyrra málinu. Þar er deilt um ákvæði þar sem segir að ef orkukaupandinn getur ekki tekið við umsaminni orku þurfi hann alltaf að greiða 85 prósent af henni.