Framkvæmdir við byggingu undir stálpípuverksmiðju í Reykjanesbæ hefjast í lok næsta mánaðar. Gert er ráð fyrir að um 350 manns starfi í verksmiðjunni þegar hún verður að fullu komin í gagnið á næsta ári. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Þar sagði ennfremur að Suðurnesjamenn binda miklar vonir við verksmiðjuna og telja að hún verði mikil vítamínssprauta í atvinnuleysinu sem hefur hrjáð þá síðustu misseri. Lokað útboð, sem nær til tæplega 10 verktaka stendur yfir og gert er ráð fyrir að niðurstöður úr því verði kynntar 13 október og að framkvæmdir hefjist í loka mánaðarins.

Í frétt RÚV sagði að í raun væri verið að ráðast fyrst í annan áfanga framkvæmdanna því enn á eftir að reka smiðshöggið á fjármögnun fyrri áfangans. Reist verður 8.200 fermetra verksmiðjuhús og hefur stálpíuframleiðandinn International Pibe and Tube keypt notaðar vélar í Kanada sem verða fluttar til landsins í lok ársins og gert er ráð fyrir að framleiðsla hefjist um mitt næsta ár. Við þennan hluta er gert ráð fyrir að starfsmenn verði um 135.

Eigandi verksmiðjunnar fékk upphaflega lóð við höfnina í Helguvík og heimild til að reisa þar 17.500 fermetra verksmiðju þar sem bæði verða vélar og geymslupláss fyrir rörin. Þegar hefur verið gengið frá því að s-kóreska fyrirtækið Daewoo reisi verksmiðjuna enda koma vélarnar frá því. Eftir því sem næst verður komist er verið að ljúka við fjármögnun stærri verksmiðjunnar og búist er við að framkvæmdir við hana verði samhliða framkvæmdum við verksmiðjuna sem byrjað verður að reisa í næsta mánuði. Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi starfsmanna verði um 350 þegar báðar verksmiðjunnar verða komnar í gang.