Hvorki liggur fyrir hvað útgerðin Stálskip í Hafnarfirði fær fyrir sölu á togaranum Þór HF til rússneskrar útgerðar né hvað útgerðirnar Gjögur, Síldarvinnslan og Útgerðarfélag Akureyringa greiða fyrir aflaheimildir. Ársreikningur Stálskips fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir. Í uppgjör fyrirtækisins fyrir árið 2012 kemur skýrt fram hversu sterkt félag Stálskip er. Tilkynnt var fyrr í dag að búið sé að selja þessar lykileignir Stálskips. Hjónin Guðrún Lárusdóttir og Ágúst Sigurðsson, sem bæði eru komin á níræðisaldur, ætli að breyta Stálskipi í fjárfestingarfélag.

Í ársreikningum kemur fram að hagnaður Stálskipa nam 539,6 milljónum króna þetta árið. Eignir námu rúmum 3,6 milljörðum króna. Þar af voru varanlegar fiskveiðiheimildir upp á 423,8 milljónir króna. Þar er miðað við bókfært virði slægðs fisks. Bankainnstæður og sjóðir hljóðuðu upp á rúma 2,5 milljarða króna. Þá var óráðstafað eigið fé Stálskipa 3,2 milljarðar króna í lok ársins. Ekki er gefið upp í ársreikningi Stálskips á hve mikið togarinn Þór HF er metinn. Í uppgjöri Stálskips segir þá að vátryggingamat hans er 1.457 milljónir króna.

Á móti sterkum eignum námu skuldir Stálskips rúmum 446,5 milljónum króna. Þar af voru viðskiptaskuldir upp á tæpar 200 milljónir, ógreiddir reiknaðir skattar upp á 131,8 milljónir og skuldir við tengda aðila upp á 44 milljónir.

Fram kemur í upplýsingum frá talsmanni Stálskipa við fyrirspurn VB.is að skoðað hafi verið gaumgæfilega að selja togarann Þór innlendum aðilum. Það hafi ekki verið hægt þar sem mögulegur kaupandi hafði ekki getu til að kaupa skipið með aflaheimildum. Rússar áttu hinsvegar hæsta boð í skipið sjálft og því voru aðrar leiðir ekki færar. Þá reyndi ekki á forkaupsrétti sveitarfélagsins eða innlendra útgerða þar sem forkaupsréttur á aðeins við um skipið sjálft en ekki aflaheimildir þegar það er selt til annars sveitafélags. Forkaupsréttur kom því ekki til álita.