Stálsmiðjan ehf. við Mýrargötu hefur keypt Véla- og skipaþjónustuna Framtak ehf. og dótturfyrirtæki þess FramtakBlossa ehf. Þar með hafa tvö af stærstu málm- og véltæknifyrirtækjum landsins verið sameinuð undir einni yfirstjórn enda þótt þau starfi áfram sem sjálfstæð fyrirtæki. Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins.

Stálsmiðjan stefnir að því að flytja starfsemi sína úr Mýrargötunni í Reykjavík upp á Grundartanga en Framtak er með höfuðstöðvar sínar í Hafnarfirði og einnig stóra starfsstöð í Klettagörðum í Reykjavík. Um þessar mundir starfa um 180 manns í fyrirtækjunum. Viðfangsefni þeirra eru ærið fjölbreytt og má nefna almennar véla- og skipaviðgerðir, verkefni við byggingu gufuaflsvirkja og stóriðjuvera, fjölbreytta stálsmíði og rennismíði og viðgerðir gáma og sérhæfða trésmíði.

Framkvæmdastjóri fyrirtækjanna verður Bjarni Thoroddsen, sem verið hefur framkvæmdastjóri Stálsmiðjunnar ehf.