Japanska lögreglan telur nú að yfirvöld í Norður-Kóreu beri ábyrgð á risaþjófnaði árið 2016. Á nokkrum klukkutímum voru tæplega 2,5 milljarðar króna teknir út úr hraðbönkum við verslanir 7-Eleven í Tokíó og 16 öðrum stöðum í Japan.

Alls hafa 260 manns verið handteknir í tengslum við glæpinn, sem nú hefur verið rakinn til Norður-Kóreu. Á meðal hinna handteknu voru meðlimir í japönsku mafíunni Yakuza en talið er að þeir hafi verið málaliðar yfirvalda í Norður-Kóreu.