Erlendum tölvuþrjótum tókst að svíkja tæplega 400 milljónir króna út úr HS Orku í sumar og segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri félagsins, að um þaulskipulagðan glæp hafi verið að ræða. Greint var frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Ásgeir segir að væntanlega verði hægt að endurheimta þorra upphæðarinnar. Engu að síður sé full ástæða til að hafa varann á og búa þannig um verkferla og kerfi að svona lagað geti ekki gerst.

Fyrir nokkrum vikum varð starfsfólki HS Orku ljóst að brotist hefði verið inn í tölvukerfi félagsins og fjármunir sviknir út. Unnið sé í samvinnu með bæði innlendum og erlendum lögregluyfirvöldum að því að endurheimta fjármunina.

Ásgeir vill ekki upplýsa um hvernig þjófarnir athöfnuðu sig þar sem lögreglurannsókn standi enn yfir. Hins vegar hafi snögg viðbrögð starfsmanna orðið til þess að hægt hefur verið að endurheimta töluverðan hluta fjármunanna.  „Þetta er þaulskipulagt. Mjög útfært og í gegnum þetta ferli höfum við orðið þess áskynja að þetta er mun algengara en maður áður hélt,“ segir Ásgeir Margeirsson í samtali við Fréttablaðið.