Bíræfnir bílaþjófar stálu 97 bílaleigubílum á Nýja-Sjálandi sem stóðu mannlausir, ólæstir og með lyklunum í meðan á afar ströngu útgöngubanni þar í landi stendur.

Bílarnir voru á læstu svæði, en þjófarnir klipptu sér leið í gegn um grindverkið og reistu læst hliðið af hjörum sínum. Þeir hófu síðan að aka bílunum á brott eftir auðum götunum, en það tók þá heila helgi að ferja bílana út.

Í frétt BBC um málið er haft eftir framkvæmdastjóra útleigu hjá bílaleigunni að fréttirnar hafi verið eins og spark í magann. Fyrirtækið komst ekki að því að bílarnir væru horfnir fyrr en lögreglan gerði því viðvart, en lögreglumönnum í eftirlitsakstri þótti aksturslag bílaleigubílana grunsamlegt.

Rannsóknarlögreglumaður segir um stærsta bílaþjófnað sem hann hafi séð að ræða. „Það hryggir mann að fólk skuli gera svona lagað á meðan útgöngubann stendur yfir.“

Bílaleigan hefur lagt sitt af mörkum í baráttunni við faraldurinn með því að útvega þeim sem vantaði stað fyrir einangrun sendibíla sem innréttaðir eru með baðherbergi, auk þess sem bílar fyrirtækisins hafa verið notaðir fyrir matarsendingar.