Tölvuþrjótar hafa komist yfir og stolið um 600 milljónum dala virði af rafmyntum, eða sem nemur um 76 milljörðum króna, en um er að ræða einn stærsta rafmyntastuld sögunnar. Komust þrjótarnir yfir myntirnar með því að nýta sér veikleika í vörnum bálkakeðjusíðunnar Poly Network og komust þannig yfir þúsundir rafmynta á borð við Ether. BBC greinir frá.

Poly Network hefur biðlað til þrjótanna að skila ránsfengnum. Í yfirlýsingu síðunnar segir að lögregluyfirvöld í öllum löndum muni líta á stuldinn sem alvarlegan fjárglæp. Peningarnir sem þrjótarnir hafi stolið séu eign um tíu þúsund einstaklinga innan rafmyntasamfélagsins.

Þrjótarnir komust yfir um  267 milljóna dala virði af rafmyntinni Ether, 252 milljóna dala af Binance og um 85 milljóna dala af USDC.