Föstudaginn 31. október verður haldin fimmta ráðstefnan um þjónandi forystu hér á landi. Ráðstefnan fer fram á Bifröst kl. 10 til 16. Háskólinn á Bifröst og Þekkingarsetur um þjónandi forystu standa að ráðstefnunni.

Aðalfyrirlesari er Gary Kent þjónustustjóri hjá Schneider Corporation þar sem þjónandi forystu hefur verið hagnýtt undanfarna áratugi. Meðal annarra fyrirlesara eru Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri, Óttarr Proppé alþingismaður og Róbert Guðfinnsson fjárfestir og frumkvöðull á Siglufirði.

Auk þess verða nýja rannsóknir um þjónandi forystu hér á landi kynntar. Ráðstefnan hefur fengið góðar viðtökur og munu 200 þátttakendur leggja leið sína í Borgarfjörðinn á föstudaginn til að ræða saman um þessa hugmyndafræði sem felur í sér mörg áhugaverð tækifæri fyrir betra starfsumhverfi og betri stjórnun og forystu á vinnustöðum og félögum hér á landi, að því er segir í tilkynningu Háskólans á Bifröst.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu.