Meðan stormurinn geisar á fjármálamörkuðum heimsins starfa fjármálafyrirtæki múslima eftir ströngum siðferðisreglum. En munu þau lifa storminn af?

Bankar múslima víða um heim starfa í samræmi við Sharia, sem bannar þeim að innheimta eða greiða vexti.

Í reynd fá múslimar þó áfram ávöxtun á fé sitt, innistæðueigendur fá t.d. hlut í áætluðum hagnaði bankans.

Sumir vilja meina að strangar siðareglur í bankastarfsemi múslima geri þeirra banka betur í stakk búinn að takast á við lánsfjárkreppuna.

Í umfjöllun BBC um málið bendir Rodney Wilson, prófessor við Durham háskólann í Englandi, á að engin fjármálastofnun múslima hafi enn hrunið vegna lánsfjárkreppunnar. Einkum þakkar hann það ströngum siðareglum sem leiða til minni áhættusækni.

Aðrir óttast þó að fjármálakerfi múslima hafi þegar líkt svo mikið eftir öðrum fjármálakerfum að það sé í jafn mikilli hættu og önnur kerfi.

BBC greindi frá.