Breski bankinn Standard Chartered ætlar að loka allt að 100 útibúum á næsta ári í Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum í hagræðingaraðgerðum. BBC News greinir frá þessu.

Ætlar bankinn þannig að fækka útibúum sínum um 8% til þess að spara um 400 milljónir bandaríkjadollara á ári, en bankinn starfrækir nú um 1.200 útibú víðs vegar um heiminn.

Í síðasta mánuði kynnti bankinn uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung þar sem fram kom að hagnaður hans hefði dregist saman um 16% frá sama tímabili á síðasta ári. Gengi bréfa bankans á hlutabréfamarkaði í London hafa fallið um 30% á þessu ári.