Standard & Poor´s matsfyrirtækið tilkynnti í dag að það hefur breytt áhættumati íslenska fjármálakerfisins og fært Ísland úr flokki 4 í flokk 5.

„Þessi aðgerð endurspeglar aðallega töluverðan vöxt í skuldsetningu einkageirans á Íslandi á undanförnum árum og að bankageirinn á Íslandi er enn háðari erlendri fjármögnun“ sagði greiningaraðili Standard & Poor´s, Louise Lundberg.

Í fréttatilkynningu frá Standard & Poor´s segir að skuldsetning hafi aukist verulega á Íslandi á undanförnum fjórum árum. Fyrirtæki hafi hafið útrás út fyrir landsteinana með lánsfjármögnuðum ávinningum, en hagvöxtur í landinu og nægur aðgangur að fjármagni hafi hjálpað til. Mikill hluti þessara lána fyrirtækjanna hafi verið notaður til að fjármagna fjárfestingar erlendis, sem geri lántakana viðkvæma fyrir hrakandi aðstæðum á heimsmarkaði. Einnig hafi opnun húsnæðislánamarkaðar árið 2004 aukið skuldsetningu heimila í landinu mikið.

Í tilkynningu S&P segir einnig að möguleikar á alþjóðlegri fjármögnun hafi minnkað verulega frá 2007, og íslenskum bönkum bíði nú mikil áskorun að finna uppsprettu fjármagns og greiðslugetu. Þrátt fyrir að lausafjárstýring bankanna sé með besta móti og hafi batnað mikið frá árinu 2006, sé alveg ljóst að þeir muni áfram eiga í erfiðleikum með aðgang að fjármögnun í náinni framtíð.

Í lok tilkynningarinnar segir þó að fjármálageirinn á Íslandi hafi viðunandi markaðsvirði og hlutfallslega mikla arðsemi, þó að sá þáttur geti flökt mikið.