Ísland, Eistland og Lettland eru þau ríki heimsins sem viðkvæmust eru fyrir kólnun í hagkerfi heimsins á meðal átján nýmarkaðsríkja Evrópu, þar eð hagkerfi þeirra er háð erlendu fjármagsnflæði, að mati matsfyrirtækisins Standard & Poor’s.

Í skýrslu fyrirtækisins sem út kom í gær að sögn Bloomberg fréttaveitunnar og nefnist Mat á veikleikum evrópskra nýmarkaðsríkja, Measuring Emerging European Vulnerabilities, segir að fjármagnsflæði muni hafa mestu áhrifin á svæðisbundinn hagvöxt og gætu slæmar horfur í bandarísku hagkerfi hafa áhrif á jafn fjarlæg lönd og Úkraníu og Kazakstan.

Sortinn framundan gæti dregið úr fjármagnsflæði á nýmörkuðum Evrópu og þrengt að löndum sem hafa mestu þörfina fyrir erlent fjármagn, svo sem Ísland og Eystrasaltsríkin. Telja sérfræðingar Standars & Poor’s að í hagkerfum Íslands, Eistlands og Lettlands, þar sem lánshorfur eru neikvæðar að þeirra mati, séu þegar komin fram merki þess um að hægst hafi á vextinum.

Fram kemur í skýrslunni að djúpstæður samdráttur í bandaríska hagkerfinu geti orðið til þess að sú áhættusækni sem einkennt hefur fjármálamarkaði um árabil muni loksins víkja fyrir áhættufælni.

Þetta getur leitt til þess að seðlabankar þeirra hagkerfa þar sem að fjármálamarkaðir og ríkissjóðir eru háðir erlendu fjármagni gætu þurft að hækka stýrivexti þrátt fyrir að minni eftirspurn kalli á lægri vexti.

Þess má geta að Standard % Poor’s telur Rússland vera það ríki sem ólíklegast sé til að verða fyrir áhrifum af verra útliti í efnahagsmálum heimsins.