Án frekari aðgerða og fjárhagsumbóta, mun hækkandi hlutfall aldraðra í Svíþjóð og Noregi leiða til mikils álags á ríkissjóði og breytinga á lánshæfismati ríkjanna, segir í skýrslum frá matsfyrirtækinu Standard & Poor's á mánudag.

Skýrslurnar tvær fjalla sérstaklega um Svíþjóð og Noreg, en áður hefur verið birt almenn skýrsla um efnið sem náði yfir 32 lönd.

Án frekari umbóta, munu útgjöld vegna aldraðra hækka upp í 28% af vergri landsframleiðslu Svíþjóðar árið 2050, en þau voru 24,2% árið 2005, sagði greiningaraðili S&P, Moritz Kramer á mánudag. Ef þetta gerist munu fjárhalli og skuldastaða ríkisins byrja að hækka frá árinu 2025.

Fjárhagshrörnun af þessari stærðargráðu myndi ekki samræmast AAA flokkuninni sem Svíþjóð er nú með. Árið 2020 væri Svíþjóð kominn niður í AA, niður í A árið 2030 og BBB árið 2035, sagði Kramer.

Í Noregi myndu útgjöld vegna aldraðra hækka upp í 30,4% af vergri landsframleiðslu, án umbóta, en þau voru 19,4% árið 2005, sagði greiningaraðili S&P, Trevor Cullinan á mánudag,

Þessi atburðarrás er hins vegar ekki spá Standard & Poor's, heldur líkan sem leggur áherslu á hvernig útgjaldaliðir tengdir öldruðum geta haft áhrif á lánshæfismat ríkja. Það er mjög ólíklegt að ríkisstjórnir myndu ekki grípa til aðgerða til að sporna við slíkri þróun.

"Ef settar væru í gang róttækar breytingar sem myndu koma í veg fyrir að útgjöld tengd öldruðum hækki, væru horfurnar mun betri," sagði Kramer. "Slíkar aðgerðir myndu sjá til þess að lánshæfismat þjóðanna héldist í AAA flokknum."