Kevin Stanford, einn stærsti eigandi Kaupþings fyrir hrun, segist hafa verið í hópi ríkra viðskiptavina bankans sem hafi verið plataðir til að kaupa hlutabréf í honum. Ásakanir Stanford voru settar fram í svarbréfi hans til skiptastjóra Kaupthing Singer & Friedlander, fyrrum dótturbanka Kaupþings, sem hafði krafist þess að hann greiddi til baka 2 milljóna dala lán, 232 milljónir króna, sem hann fékk til að kaupa sér þyrlu árið 2007.

Sunday Times greindi nýverið frá innihaldi svarbréfsins. Stanford segir í bréfinu að stjórnendur Kaupþings hafi boðið honum há lán með því skilyrði að féð yrði notað til að kaupa hlutabréf í bankanum. Tilgangurinn hafi verið sá að blekkja markaðinn og láta fjárhagslega heilsu Kaupþings líta út fyrir að vera betri en hún var í raun. Stanford neitar því að borga þyrluskuldina og segir Kaupþing skulda sér miklu hærri upphæð.