Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur niðurgreiðir óarðbæran samkeppnisrekstur með fjármagni sem stafar af einkaréttarvarinni starfsemi. Fjárstoð telur að slíkt sé varla í samræmi við lög. Þetta kemur fram í úttekt Fjárstoðar á samkeppnisrekstri Íslandspósts, sem Viðskiptablaðið greindi frá á fimmtudaginn.

Íslandspóstur er opinbert hlutafélag sem fer með einkarétt íslenska ríkisins í hefðbundinni póstþjónustu, það er dreifingu almennra bréfa undir 50 gr. ásamt uppsetningu, rekstri póstkassa og útgáfu frímerkja. Íslandspósti ber einnig skylda til að inna af hendi lögbundna grunnþjónustu (alþjónustu) á landsvísu – þó án þess að hafa til þess einkarétt – svo sem dreifingu á bréfum með utanáskrift, dreifingu á markpósti, uppsetningu og tæmingu á póstkössum, ábyrgðarsendingar, fjármunasendingar og bögglasendingar. Hvað aðra póstþjónustu varðar utan póstdreifingar er Íslandspóstur í samkeppni við einkafyrirtæki á póstmarkaði og tengdum mörkuðum. Undir samkeppnisrekstur Íslandspósts fellur til að mynda uppbygging sendibílaþjónustu með tilheyrandi fjárfestingum, flutningaþjónusta, verslunarrekstur, ePóstur, fjölpóstur, vöruhótel og fleira.

Í 16. grein laga nr. 19/2002 um póstþjónustu kemur fram að óheimilt sé að nota tekjur af þjónustu í einkarétti til að greiða nið­ur þjónustugjöld í alþjónustu sem ekki fellur undir einkarétt nema að sérstökum skilyrðum uppfylltum. Segir í úttektinni að af þessu megi leiða að einnig sé óheimilt að nota tekjur af þjónustu í einkarétti til að greiða nið­ur þjónustugjöld utan alþjónustu, það er hreinan samkeppnisrekstur.

Fjárstoð telur að draga megi í efa að ofangreind starfsemi Íslandspósts samræmist lögum, sem verður að teljast óheppilegt í ljósi þess hversu oft málefni félagsins hafa lent á borð­ um samkeppnisyfirvalda.

Sagan endalausa

Ekki er þetta í fyrsta skipti sem háttsemi stjórnenda Íslandspósts hefur verið gagnrýnd, en á undanförnum árum hefur vantraust grafið um sig gagnvart fyrirtækinu á póstmarkaði. Eftirlitsstofnanir og samkeppnisyfirvöld hafa ítrekað gert athugasemdir við háttsemi stjórnenda Íslandspósts þegar kemur að samkeppnislögum og lögum og reglugerðum um póstþjónustu.

Samkeppniseftirlitið hefur til að mynda birt fyrirtækinu fjölda andmælaskjala þar sem komist hefur verið að niðurstöðu um brot Íslandspósts gegn samkeppnislögum. Stjórnendur Íslandspósts og Samkeppniseftirlitið gerðu með sér sátt um rekstur Íslandspósts í febrúar fyrr á árinu, með það að markmiði að bregðast við og koma í veg fyrir að Íslandspóstur misnoti markaðsráðandi stöðu sína eða nýti fjármagn sem stafar frá einkaréttarvarinni starfsemi til niðurgreiðslu samkeppnisrekstrar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .