Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðum við upphaf þingfundar í dag að þótt mikilvægt sé að ræða þátt eftirlitsstofnana í því hvernig komið er fyrir íslensku efnahagslífi þá hljóti menn að staðnæmast sérstaklega við „hina rekstrarlegu ábyrgð, siðferðilegu ábyrgð og refsiréttarlegu ábyrgð forsvarsmanna Landsbankans, sem héldu áfram að stofna til skuldbindinga eftir að fyrir lágu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins um að ekki væri með fullnægjandi hætti um hnúta búið. Maður hlýtur að staðnæmast þar við. Þar liggur stór ábyrgð  og þeir sem hana kusu að axla verða að svara fyrir þær ákvarðanir.“

Árni Páll sagði erfitt að finna mál sem yrði betri prófsteinn á það fyrirkomulag sem forsætisnefnd Alþingis hefur kynnt að haldnir verði opnir fundir í fastanefndum Alþingis.

„Ég held að það sé alveg ljóst að þegar komumst i gegnum þessar erfiðu fyrstu vikur þá blasir við að við gerum úttekt á því sem aflaga fór og hún á hvergi betur heima en á opnum fundum viðskiptanefndar,“ sagði Árni Páll og bætti við að á slíka fundi ætti almenningur að geta komið og þar mundi lýðum verða ljóst aflaga fór og einnig muni slíkir fundir sannfæra fólk um að ekki sé reynt að draga dul á hvernig atburðarásin  var í raun og veru.