Í vikunni hófst sala á jólabjór í íslenskum áfengisverslunum og markar það upphafið að árlegri vertíð fyrir íslensk brugghús. Sturlaugur Jónbjörnsson, bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi, segir stanslausa aukningu hafa verið á framleiddum lítrum af jólabjór frá því að framleiðslan hófst fyrst árið 1992.

Giljagaur og Askasleikir jólabjórar ársins

Borg Brugghús, sem heyrir undir Ölgerðina, mun í ár setja á markað jólabjórana Giljagaur, sem er endurkoma eldri jólabjórs og Askasleiki,sem er ný uppskrift sem kemur nú í fyrsta sinn á markað. Auk þess mun Ölgerðin setja á markað nokkrar tegundir af jólabjór.

Í dag markar koma jólabjórsins í verslanir ákveðin tímamót fyrir marga, enda viðburður sem minnir okkur á að jólin nálgast óðfluga. Gríðarlegur áhugi Íslendinga á vörunni er þó frekar nýtilkominn enda ekki svo ýkja langt síðan jólabjórinn ruddi sér til rúms hér á landi.

„Áhuginn á jólabjórnum hefur aukist jafnt og þétt milli ára og í raun hefur verið stöðug aukning á framleiddum lítrum af jólabjór alveg síðan framleiðsla hófst fyrst. Þessi sprenging í framleiðslu, svona jólabjóraflóð eins og við þekkjum það í dag, átti sér hins vegar fyrst stað á árunum 2006-2008, ef ég man rétt. Framleiðsla á jólabjór hófst hins vegar fyrst árið 1992, “ segir Sturlaugur.

Hann segir ástæðuna fyrir þessari miklu aukningu meðal annars mega rekja til gríðarlegs áhuga fólks á minni bjórframleiðendum, en sá áhugi virðist hafa vaknað á árunum 2007-2008.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.