Icelandair flutti tæplega 95 þúsund farþega í nóvember sl., sem er 21% fjölgun á milli ára. Þá hefur farþegum Icelandair fjölgað um 14% á milli ára fyrstu 11 mánuði ársins.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group en heildarfjöldi farþega hjá Icelandair það sem af er ári nemur tæplega 1,4 milljón, samanborið við rúma 1,2 milljón farþega á sama tíma í fyrra.

Farþegafjöldi Icelandair sló met í september sl. þegar félagið flutti rúmlega 146 þúsund farþegar sem var mesta aukning í einum mánuði á þessu ári auk þess sem félagið hefur aldrei flutt jafn marga farþega í september áður.

Sætanýting Icelandair það sem af er ári er um 79%, sem er 3,5% aukning á milli ára.

Farþegum Flugfélags Íslands fækkar

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, fækkaði um 1% á milli ára í nóvember þegar félagið flutti um 27.400 farþega. Farþegum félagsins hefur aðeins einu sinni fjölgað á milli ára á þessu ári en það var í október sl.

Þannig hefur farþegum Flugfélags Íslands fækkað um 7% á milli ára fyrstu 11 mánuði ársins. Í lok nóvember hafði félagið flutt tæplega 319 þúsund farþega, samanborið við rúmlega 340 þúsund farþega á sama tíma í fyrra.

Þá hefur sætanýting félagsins minnkað um 1,2% á milli ára það sem af er ári.

4% samdráttur í fraktflugi

Fraktflug á vegum samstæðunnar heldur einnig áfram að dragast saman. Í nóvember dróst fraktflug saman um 5% á milli ára en þannig nemur samdrátturinn í fraktflugi um 4% það sem af er ári.

Þá hefur nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar dregist örlítið saman á milli ára. Seldar gistinætur í nóvember stóðu í stað á milli ára en gistinóttum hefur fækkað um 1% á milli ára.

Nýting flugflota í eigu Icelandair Group jókst lítillega í nóvember á milli ára eða rúm 1%. Hér er átt við allar vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic. Nýting flugflotans hefur aukist um 1,1% á milli ára fyrstu níu mánuði ársins.