Þann 9. maí síðastliðinn gerðu lífeyrissjóðurinn Stapi og Fjármálaeftirlitið sátt sem fólst í því að Stapi viðurkenndi brot sitt og féllst á að greiða 1,6 milljónir króna í sekt. Brotið fólst í því að málsaðila láðist að tilkynna um verulega breytingu á atkvæðisrétti í Högum hf. innan tilskylds tímafrests.

Málsatvik eru þau að í viðskiptum sem málsaðili átti með hluti í Högum hf. hinn 11. janúar 2018 fór eignarhlutur hans úr 4,75% í 5,04%. Málsaðili sendi tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins og regluvarðar Haga hf. þann 19. janúar síðastliðinn þegar honum varð ljóst að flöggunarskylda hefði stofnast með viðskiptunum þann 11. janúar þar sem málsaðili fór yfir 5% eignarhlut í Högum hf. Ástæða þess að tilkynning um viðskiptin var ekki send innan lögbundins frests var villa í upplýsingum um eignarhlut málsaðila í Högum hf. Málsaðili óskaði eftir að ljúka málinu með sátt.

Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500.000 krónum til 800.000.000 króna, en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.

Við ákvörðun sektarfjárhæðar í máli þessu hefur Fjármálaeftirlitið litið til mikilvægis flöggunartilkynninga en þeim er ætlað að treysta gagnsæi fjármálamarkaðar með því að upplýsa um breytingar á verulegum hlut atkvæðisréttar eiganda í útgefendum. Flöggunartilkynningar stuðla að vitneskju um hverjir það eru sem ráða yfir verulegum atkvæðisrétti í útgefandanum og eru líklegir til að hafa áhrif á stjórnun þeirra. Sektarfjárhæðin tók mið af flokkun löggjafans á alvarleika brotsins. Einnig var tekið mið af því að málsaðili hefur ekki á síðustu fimm árum gerst brotlegur við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti.